Vestnorræna deginum fagnað

Vestnorræni dagurinn var haldinn hátíðlegur í Veröld – húsi Vigdísar þann 23. september 2019, en þetta var í fyrsta skipti sem haldið var á upp á daginn hér á landi.

Vigdísarstofnun tók þátt í skipulagningu dagsins ásamt Norræna húsinu, Norræna félaginu og Vestnorræna ráðinu. Málstofa fór fram í Veröld og að henni lokinni var dagskránni haldið áfram í Norræna húsinu, þar sem listasýningar og vestnorrænar veitingar voru á boðstólum.

Málstofan í Veröld var vel sótt, en Ann-Sofie Gremaud, lektor í dönsku við Háskóla Íslands, stjórnaði málstofunni auk þess sem hún greindi frá alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem hún hefur unnið að um tengsl Vestnorræna svæðisins við Danmörku.

Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands, sagði einnig frá rannsóknarverkefnum sínum, meðal annars um vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum. Hún fjallaði einnig um áherslur Vigdísarstofnunar á vestnorræna svæðið.

Katla Kjartansdóttir doktorsnemi í safnafræði sagði gestum frá verkefni hennar og Kristins Schram, dósents í þjóðfræði og safnafræði, sem nefnist Hlutir í huga. Þau fengu Íslendinga í Kaupmannahöfn til þess að velja og segja sér frá hlut sem þeir tóku með sér frá Íslandi við búferlaflutninga. Nú hyggjast þau Katla og Kristinn gera slíkt hið sama með Færeyingum og Grænlendingum í Kaupmannahöfn.

Þá sögðu þær Rakel Helmsdal og Áslaug Jónsdóttir frá sínu skapandi samstarfi, en þær eru tvær af þremur höfundum Skrímslabókanna vinsælu.

Í Norræna húsinu eru svo sýningar bæði á verki Kötlu og Kristins og einnig grænlenska listamannsins Inuuteq Storch, sem sagði frá sínu verkefni í leiðsögn í Norræna húsinu.