Líflegt málþing kvenleiðtoga

Vigdísarstofnun stóð í fyrir málþinginu The Voices and Languages of Indigenous and Minority Communities: What Can Women Leaders Do? í Veröld – húsi Vigdísar þann 9. nóvember. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Council of Women World Leaders í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga – Global Forum of Women Leaders, sem stóð yfir í Hörpu dagana 8.-9. nóvember.

Dagskráin hófst með opnunarávarpi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra sem einnig gegnir embætti formanns Council of Women World Leaders, og ávarpi Lauru Liswood aðalritara samtakanna. Að ávörpum loknum tóku við aðalræðumenn þingsins, þær Sara Olsvig frá Grænlandi, forseti samtakanna Inuit Circumpolar Council, og Lilyana Kovatcheva frá Búlgaríu,  sem leggur stund á fræðimennsku og er baráttukona fyrir réttindum Rómafólks. Í erindi sínu fjallaði Sara Olsvig um áhrif nýlendustefnunnar á grænlenskt samfélag, notkun grænlenskra tungumála og samband stéttskiptingar og tungumáls í Grænlandi. Lilyana Kovatcheva sagði í ræðu sinni frá hvernig hún þurfti sem ung stúlka að yfirvinna margar áskoranir og takast á við samfélaglegar venjur til að geta brotist til mennta, en hún er fyrsta konan í samfélagi sínu til að hljóta háskólamenntun og fyrsta manneskjan af rómískum uppruna til að útskrifast með doktorsgráðu frá búlgarskri menntastofnun.

Að erindum loknum hófust pallborðsumræður með þátttöku Elizu Reid, forsetafrúar og stofnanda Iceland Writers Retreat, Irinu Bokovu, aðalframkvæmdastjóra UNESCO 2009-2017, Söru Osvig og Lilyönu Kovatchevu. Í umræðum þeirra var áhersla lögð á mikilvægi þess að konur tækju að sér leiðtogahlutverk á mismunandi sviðum, jafnt á alþjóðlegum vettvangi, stjórmála- og menningarlegum, í stórum jafnt sem minni hópum. Í lokin hófust líflegar umræður með þátttöku gesta í salnum. 

Aðalskipuleggjandi og stjórnandi málþingsins var Sofiya Zahova, forstöðumaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar og sérfræðingur í málefnum Rómafólks, en þingið var hluti af röð viðburða sem Vigdísarstofnun efnir til innan ramma Alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála – IDIL 2022-2032.

Myndir: Varvara Lozenko