Mary Robinson heimsækir Veröld – hús Vigdísar

Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands, heimsótti Veröld – hús Vigdísar í dag. Með henni í för voru Hadeel Ibrahim, forstöðumaður Mo Ibrahim stofnunarinnar og Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands og góðgerðarsendiherra UNESCO, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, tóku á móti hópnum og snæddu hádegisverð í Veröld eftir kynnisferð um bygginguna, þar sem meðal annars var rætt um loftslags- og umhverfismál.  Við þetta tækifærði færði Hadeel Ibrahim Vigdísi Finnbogadóttur góða gjöf, veglega yfirlitsbók yfir verk Ólafs Elíassonar, sem höfð verður til varðveislu í Veröld – húsi Vigdísar.

Myndir: Kristinn Ingvarsson.