í Fréttir, News, VIMIUC

 

Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála – IDIL 2022-2032, var settur við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag. Um leið fagnaði Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar fimm ára afmæli sínu, en starfsemi hennar hófst í apríl 2017 þegar Veröld – hús Vigdísar var tekin í notkun. 

Við setningu áratugarins fluttu ávörp þau Tawfik Jelassi, aðstoðarforstjóri samskipta og upplýsinga hjá UNESCO, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, ritari íslensku UNESCO-nefndarinnar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósent í dönsku og stjórnarformaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita, fulltrúi Íslands í verkefnisstjórn IDIL 2022-2032 og Peter Austin, prófessor í SOAS háskóla í London. Fundarstjóri var Sæunn Stefánsdóttir, formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar. 

Eftir setninguna hófst málþingið Cultural Production and Language Futures: Perspectives from the West Nordics.  Jonhard Mikkelsen, málvísindamaður, kennari, útgefandi og handhafi Vigdísarverðlaunanna 2020, fjallaði þar um færeyskar veforðabækur, Katti Frederiksen, málvísindakona, ljóðskáld, rithöfundur, útgefandi, baráttukona og handhafi Vigdísarverðlaunanna 2021 hélt erindi um þróun og stöðu grænlenskunnar og Peter Austin, prófessor í SOAS háskóla fjallaði um aðferðir til endurlífgunar tungumála sem undir högg eiga að sækja. Málþinginu stjórnaði Ann-Sofie Nielsen Gremaud. 

Að viðburðinum í hátíðarsal loknum var gestum boðið að skoða tungumálasýninguna Mál í mótun sem opnaði formlega við þetta tækifæri, auk þess sem boðið var upp á léttar veitingar. 

Vigdísarstofnun hefur lýst yfir vilja til að styðja við áratuginn með verkefnum sem lúta að fámennistungumálum og byggja þar á langri reynslu af rannsóknum innan þess málaflokks. Stofnunin mun að auki deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032  hér á  landi, m.a. um þá starfsemi sem fer fram í tengslum við átakið, bæði á Íslandi og erlendis, og hefur með það að markmiði opnað sérstaka vefsíðu tileinkaða áratuginum.

Vefsíða Vigdísarstofnunar, tileinkuð IDIL 2022-2032
Upptaka af setningu IDIL 2022-2032 í hátíðarsal Háskóla Íslands 22. apríl 2022

Myndir: Kristinn Ingvarsson

#indigenouslanguagesdecade #idil

 

 

 

 

Aðrar fréttir
X