Rafrænt kennsluefni í tilefni Alþjóðlega móðurmálsdagsins

Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn er haldinn 21. febrúar ár hvert. Markmið hans er að stuðla að fjöltyngi og menningarlegum fjölbreytileika. Góður grunnur í móðurmáli hefur áhrif á þroska barna og sjálfsmynd og getur haft lykiláhrif á nám í framtíðinni.
 
Árlega heldur Vigdísarstofnun upp á daginn í samstarfi við STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi með stuðningi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en hann er að þessu sinni tileinkaður japönsku máli og menningu. Á Íslandi búa 125 Japanir og 119 Íslendingar búa í Japan (skv. nýjustu tölum frá 2017). Um 126 milljónir tala japönsku sem móðurmál og er hún afar vinsæl námsgrein í Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. 
 
Í tilefni dagsins var kennsluefni í japönsku fyrir byrjendur og japanskri föndur- og teiknikennslu á rafrænu formi dreift í grunnskóla landsins.  Kennarar eru hvattir til að nýta sér námsefnið og halda upp á alþjóðlega móðurmálsdaginn, hver með sínum hætti.  

Við óskum öllum gleðilegs móðurmálsdags!