Rannsóknir um haf, loftslag og samfélag

Sex nýdoktorar hafa verið ráðnir til rannsóknarstarfa við nýstofnað Rannsóknarsetur Margrétar II. Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS). Rannsóknasetrið starfar við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla en hér verður það með aðstöðu í Veröld – Húsi Vigdísar. 

Nýdoktorarnir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu. Það er þverfræðilegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. 

Nýdoktorarnir sex eru af sviði hug- og félagsvísinda annars vegar og af sviði náttúruvísinda hins vegar. Vísindafólkið af fyrrtöldu sviðunum mun kanna áhrif hafs og loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og menningu og vísindafólkið af því síðartalda mun kanna samband loftslags- og vistkerfa í gegnum söguna í hafi og á landi. Það verður m.a. gert með því að kortleggja tengsl loftslags og lífríkis hafsins á mannöldinni og með því að rannsaka loftslagstengdar breytingar á láði og legi.

Nýdoktorarnir sem koma til rannsóknastarfa við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla eru Angela Marie Rawlings, Háskóla Íslands og Háskólanum í Árósum; Auður Aðalsteinsdóttir, Háskóla Íslands; Wesley Randall Farnsworth, Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla; Kirstine Drumm, Kaupmannahafnarháskóla; Rebecca Jackson, Kaupmannahafnarháskóla og Arndís Bergsdóttir, Háskóla Íslands, en hún er einnig í forsvari fyrir verkefnið á Íslandi.

Nánar um verkefnið á vefsíðu Háskóla Íslands.