Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks komin út

Smásagnasafnið Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks er áttunda verkið sem kemur út í einmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og hefur að geyma smásögur eftir sex rithöfunda frá 20. og 21. öld: Georgí Tsvetkov, Ilonu Ferková, Jess Smith, Jorge Emilio Nedich, Jovan Nikolić og Matéo Maximoff. Verk þeirra eru fjölbreytileg og samin á ólíkum tungumálum en þeir sækja allir í sama menningarbrunn. 

Sofiya Zahova, sérfræðingur í menningu og bókmenntum Rómafólks og Sígauna, valdi sögurnar sem eru frá Argentínu, Frakklandi, Rússlandi, Serbíu, Skotlandi og Tékklandi. Bókmenntir Rómafólks og Sígauna eru lítt þekktar hér á landi. Þær eru gjarnan nátengdar munnmælahefð og endurminningum. Verkin voru valin með það í huga að gefa sem fjölbreyttasta mynd af smásögum rómískra rithöfunda. 

Sofiya Zahova og Ásdís Rósa Magnúsdóttir rita inngang bókarinnar þar sem saga rómískra bókmennta er rakin og sagt frá helstu einkennum þeirra. Málvísindamaðurinn Ian Hancock skrifar eftirmála en hann er þekktur talsmaður Rómafólks og Sígauna og hefur gefið út ýmis rit um sögu þeirra og bókmenntir.

Renata Emilsson Peskova, Rebekka Þráinsdóttir, Irena Guðrún Kojic, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Ásdís Rósa Magnúsdóttir þýddu sögurnar. Ritstjórar bókarinnar eru Sofiya Zahova, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Ásdís Rósa Magnúsdóttir. 

Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks er gefin út á Alþjóðlegum degi rómískunnar af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaúgáfunni. Verkið er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og verður fáanleg í öllum helstu bókaverslunum.